• Heill heimur
  • Ráðgjöf - PIT meðferð
  • Um mig
  • Námskeið
  • Námskeið - samstarf
  • Fyrirlestrar
  • Greinar
  • Hafa samband
  Heill heimur

það sem ég vildi sagt hafa...

Hvert skref er lífið sjálft!

10/11/2017

 
Picture
Það var sólríkur dagur í sveitinni, heiðskýr himinn og sólin átti greiðan aðgang inn um stóra glugga sumarhússins. Sólin lýsti einnig upp hjarta mitt og ég tók létt dansspor á meðan ég undirbjó morgunverðinn minn. Ég fann fyrir mikilli gleði og fylltist þakklæti fyrir lífið og þetta dásamlega sólríka andartak sem það færði mér. Ég opnaði út á verönd, andaði að mér gróðurilminum og heyrði að fuglarnir voru að  syngja sitt ljúfasta lag. Mig langaði allt í einu að deila þssari dýrð með einhverjum og eins og sannri nútímamanneskju sæmir greip ég símann minn og sendi vinkonu minni skilaboð um að ég væri stödd í paradís. Örfáum andartökum síðar fékk ég skilaboð frá lífinu sjálfu um hversu viðkvæmt og hverfult lífið er því á örskotsstundu tók það allt aðra stefnu. Lítill fugl kom fljúgandi inn, flaug beint á vegg og datt í gólfið. Ég stóð sem frosin eitt andartak en hljóp svo til og opnaði stóra glugga svo meiri líkur væru á að fuglinn kæmist greiðlega út aftur. Fuglinn hóf sig til flugs en í stað þess að fljúga út um gluggann flaug hann á lokaðan glugga. Hann féll í gólfið og lá þar hreyfingarlaus en ég sá að hann var enn lifandi því hann andaði ótt og títt. Ég tók hann varlega upp og gekk með hann út á verönd. Þar lagði ég hann niður, strauk honum og vonaði að hann myndi jafna sig fljótt. Ég sat hjá honum og talaði til hans, sagði honum að hann þyrfti ekkert að óttast. Stuttu síðar hætti hann að anda og lá örendur fyrir framan mig. Á þeirri stundu gerðist eitthvað innra með mér. Mér fannst ég sjá stóru lífsmyndina eitt andartak. Ég áttaði mig á mikilvægi þess að streitast ekki á móti lífinu, sem er á stöðugri hreyfingu, með því að halda dauðahaldi í hugmyndir mínar og venjur, sem væru oft bæði gamlar og úreltar. Lífið hefði sinn gang og það sem ég gæti best gert væri að þvælast ekki of mikið fyrir, hvorki sjálfri mér né öðrum heldur sleppa takinu og taka hvert skref með opnum hug og hjarta og þakklæti fyrir hvert andartak sem mér væri gefið.
 
Zen meistarinn Thich Nhat Hanh orðar þetta svona:
„Á hverjum morgni færir lífið mér 24 glænýjar stundir og ég legg mig fram við að lifa þeim á einstakan hátt - hvert andartak, hverja klukkustund sem ég hef fengið að gjöf. Ég æfi mig í að horfa á samferðarfólk mitt með augum samkenndar og inni öll mín verk af hendi af hjartans einlægni - það er lífið. Leyndarmál lífsins er að ganga á þann hátt að hvert skref er lífið sjálft“.
 
Heildarmyndin varð mér ljós eitt augnablik en síðan fann ég fyrir fyrirstöðu svona eins og það hlyti að vera eitthvað sem ég gæti gert til að breyta þessari atburðarrás því hún var mér alls ekki að skapi. Í gegnum hugann fóru ótal hugsanir um hvað ég hefði getað gert til að koma í veg fyrir þetta, ég hefði t.d. ekki átt að hafa svona galopið út, ég hefði ekki átt að hlaupa til og opna fleiri glugga því það hefði gert fuglinn hræddari og komið í veg fyrir að hann hefði farið sömu leið út o.s.frv. Engin þessarra hugsana breytti hins vegar þeirri staðreynd að fuglinn lá dáinn á veröndinni og það var ekkert sem ég gat sagt eða gert sem blési í hann lífi á ný. Það besta sem ég gat gert var að sætta mig við lífið - eins og það birtist þetta andartak. Ég fann fyrir sársauka og vanmætti en ég ákvað, þrátt fyrir mikla löngun til að standa upp og hrista þetta af mér, að sitja kyrr og ýta tilfinningunum og hugsununum ekki í burtu. Ég beindi athyglinni að andardrættinum og leyfði hugsunum að koma og fara án þess að hindra þær. Ég reyndi ekki að stýra þeim eða breyta heldur einungis að anda þeim að mér og frá. Smám saman fann ég hvernig viðnám hugans minnkaði og í staðinn fann ég fyrir einhvers konar sátt og samkennd.
 
Ef ég hefði átt þess kost að stýra atburðarrásinni hefði framvindan verið önnur. Fuglinn hefði jafnað sig og hafið sig hátt til flugs á meðan ég hefði tekið létt dansspor á veröndinni og veifað til hans. Ég er óendanlega þakklát þessum litla fugli sem flaug svo óvænt inn í líf mitt með boðskap um hversu viðkvæmt og dýrmætt líf okkar er og hversu mikilvægt hvert skref á lífsleiðinni er því við vitum ekki hvað bíður okkar handan við hornið. Það sama á við um okkur og fuglinn, það skiptir ekki alltaf máli hversu margir leiðir eru færar, við tökum ekki eftir þeim og einblínum á lokaða leið vegna þess að við erum full af ótta og þorum ekki að sleppa tökunum og treysta lífinu. Förum sömu troðnu slóðina afþví við erum hrædd við breytingar, hið óþekkta. Notumst við gömul hegðunarmynstur sem eiga ekki lengur við og skapa sársauka og þjáningu. Höldum oft fast í fortíðina og látum okkur dreyma um framtíðina, sem rænir okkur möguleikanum á að lifa í núinu - sem er það eina sem við raunverulega höfum. Þegar fyrsti Ford bílinn kom á markað var hann ekki með bakkgír. Það skapaði erfiðleika því það þurfti að fara ýmsar krókaleiðir til að komast á áfangastað. Það er heldur ekki bakkgír á lífinu og ekki hægt að fara afturábak. Engin tímavél er til enn nema í bíómyndum og leiðin liggur því aðeins fram á við, andartak fyrir andartak, með fortíðina í farteskinu - leiðarljós sem lýsir lífsins leið.

„Þegar blekkingar hugans hverfa inn í myrkrið snúum við aftur til þagnarinnar. Þessi þögn er eins og íslenskt landslag, þrungin óendanlegri fegurð, víðáttu og friðsæld. Þannig er hugurinn í hugleiðslu, mikilfenglegur og víðáttumikill, án upphafs og enda.“  Jakusho Kwong Roshi

Að finna lífið

9/25/2017

 
Picture
​Fyrir nokkrum árum sat ég á kaffihúsi í Róm einn fallegan vetrarmorgun.
​Ég sat hugsi og starði út í loftið þegar ég tók eftir eldri hjónum koma inn. Þau leiddust og ég tók eftir því þegar þau gengu framhjá mér að konan var orðin nokkuð fótalúin en eiginmaðurinn studdi vel við hana, hjálpaði henni að setjast og koma sér þægilega fyrir. Síðan trítlaði hann að afgreiðsluborðinu og birtist skömmu síðar með ítalskan árbít - kaffi og cornetto. Ég fann að augu mín fylltust af tárum við það eitt að fylgjast með þeim. Áhrifunum sem þetta hafði á mig er erfitt að lýsa. Ég held að ég hefði ekki tekið eftir þessu sérstaklega áður en ég byrjaði að iðka hugleiðslu reglulega og æfa mig í að halda vakandi athygli. Lífið er fullt af svona augnablikum en við æðum áfram, upptekin af því að vera upptekin og tökum ekki eftir því sem er raunverulega að gerast inni í okkur og beint fyrir framan augun á okkur. Ég hef svo oft ætt áfram án þess að staldra við og leyfa hlutunum að hafa sinn gang. Ætt á móti straumnum í stað þess að leyfa mér að fljóta með honum og upplifa samferðafólk mitt með opnum augum og einlægu hjarta.  Það gerði ég hins vegar þennan vetrarmorgun á kaffihúsinu og sat allt í einu með augun full af tárum og snortið hjarta. 

Að streitast á móti eða hvíla í andartakinu…

9/8/2017

 
Picture
Ég hef svo oft ætt áfram án þess að staldra við og leyfa hlutunum að gerast áreynslulaust. Þetta hefur með innri stjórn að gera, óttanum við hvað gerist ef ég er ekki við stjórnvölinn. Fyrir þó nokkrum árum var ég á leið í langt flug og búin að koma mér vel fyrir í sætinu þegar flugfreyja beygði sig niður að mér og bauð mér að koma inn í flugstjórnarklefann og fylgjast með flugtaki og lendingu. Ég átti alls ekki von á þessu og áður en ég vissi af  var ég búin að segja já takk. Ef ég hefði haft svigrúm til að hugsa málið eru allar líkur á að ég hefði afþakkað boðið því hugurinn hefði haft tækifæri til að telja mig ofan af þessu með vel þekktum hræðsluáróðri. Ég hafði lengi glímt við fælni sem hafði þau áhrif m.a. að ég fór ekki í flugvél í mörg ár. Ég var búin að ná nokkuð góðum tökum á fælninni þegar þetta var en þetta var þó nokkuð utan þægindarammans. Þegar ég var sest inn í flugstjórnarklefann, sem mér fannst á stærð við ágætan sturtuklefa, fann ég hvernig hugurinn fór á flug og óttinn læddist að mér. Ég tók á mig rögg og brosti til flugstjóranna, þar sem ég sat kyrfilega bundin niður og hjartað hamaðist í brjósti mér. Mig langaði mest til að rífa mig lausa og koma mér aftur þægilega fyrir í sætinu mínu. Ég var meðvituð um hvað var að gerast innra með mér, óttanum sem læddist að mér og fann að hugurinn vildi ólmur fá að komast að  og stýra ferðinni. Ég lokaði augunum, beindi athyglinni að andardrættinum - andaði inn og út þar til ég fann að að andardrátturinn varð eðlilegur og það hægði á hjartslættinum. Það slaknaði á vöðvunum sem ég hafði spennt þegar kvíðinn og óttinn sóttu að. Ógrynni af hugsunum streymdu um hugann en ég leyfði þeim að koma og fara. Ég fann hvernig ég kom til sjálfs mín, opnaði augun og var tilbúin til að vera þátttakandi í andartakinu. Ég fylgdist af áhuga með flugstjórunum fara yfir öll öryggisastriði fyrir flugtak. Þeir voru svo sannarlega  með vakandi athygli. Ég veit að þeir voru báðir búnir að gera þetta oft en mér fannst eins og þeir væru að þessu í fyrsta sinn, svo mikil var einbeitingin. Ég fæ ekki fullþakkað í dag þetta boð, ég hafði enga stjórn á því sem fram fór en fannst ég fullkomlega frjáls því ég náði að sleppa takinu og vera þátttakandi í lífinu, andartak fyrir andartak. Áður hefði hugurinn stýrt ferðinni og hefði án efa flogið með mig a hættulegri slóðir. Ég er ansi hrædd um að vélin hefði brotlent hefði hún þurft að fylgja flugleið hugans. 
- Gyða Dröfn

Að lifa lífinu lifandi!

9/2/2017

 
Picture
Þegar við sættum okkur við að lífið býður bæði upp á sigra og sorgir eigum við meiri möguleika á að lifa lífinu til fulls - eins og það er! Lífið hefur sinn gang og þó við höfum heilmikið um það að segja þá er annað sem við getum ekki haft nokkra stjórn á. Við getum t.d. gert það sem í okkar valdi til að halda góðri heilsu en það er samt engin trygging fyrir því að við veikjumst ekki. Að taka á móti því sem lífið gefur með einlægum og opnum huga er líklega ein stærsta gjöf sem við getum gefið okkur sjálfum. Hún er enda svo stór að hún er fágæt. Hún er svo stór að hún fæst ekki keypt með peningum. Hún er hins vegar föl fyrir hugrekki til að líta innávið, að taka lífinu opnum örmum, bæði gleði og sorg

    Eldra

    October 2017
    September 2017

    RSS Feed

Picture
Heill heimur  
heillheimur@heillheimur.is
Vallakór 4, 201 Kópavogur
​​​Sími 697 4545

  • Heill heimur
  • Ráðgjöf - PIT meðferð
  • Um mig
  • Námskeið
  • Námskeið - samstarf
  • Fyrirlestrar
  • Greinar
  • Hafa samband