• Heill heimur
  • Ráðgjöf
  • Um mig
  • Námskeið
  • Fyrirlestrar
  • Greinar
  • Hafa samband
  Heill heimur

það sem ég vildi sagt hafa...

Að finna lífið

9/25/2017

 
Picture
​Fyrir nokkrum árum sat ég á kaffihúsi í Róm einn fallegan vetrarmorgun.
​Ég sat hugsi og starði út í loftið þegar ég tók eftir eldri hjónum koma inn. Þau leiddust og ég tók eftir því þegar þau gengu framhjá mér að konan var orðin nokkuð fótalúin en eiginmaðurinn studdi vel við hana, hjálpaði henni að setjast og koma sér þægilega fyrir. Síðan trítlaði hann að afgreiðsluborðinu og birtist skömmu síðar með ítalskan árbít - kaffi og cornetto. Ég fann að augu mín fylltust af tárum við það eitt að fylgjast með þeim. Áhrifunum sem þetta hafði á mig er erfitt að lýsa. Ég held að ég hefði ekki tekið eftir þessu sérstaklega áður en ég byrjaði að iðka hugleiðslu reglulega og æfa mig í að halda vakandi athygli. Lífið er fullt af svona augnablikum en við æðum áfram, upptekin af því að vera upptekin og tökum ekki eftir því sem er raunverulega að gerast inni í okkur og beint fyrir framan augun á okkur. Ég hef svo oft ætt áfram án þess að staldra við og leyfa hlutunum að hafa sinn gang. Ætt á móti straumnum í stað þess að leyfa mér að fljóta með honum og upplifa samferðafólk mitt með opnum augum og einlægu hjarta.  Það gerði ég hins vegar þennan vetrarmorgun á kaffihúsinu og sat allt í einu með augun full af tárum og snortið hjarta. 

Að streitast á móti eða hvíla í andartakinu…

9/8/2017

 
Picture
Ég hef svo oft ætt áfram án þess að staldra við og leyfa hlutunum að gerast áreynslulaust. Þetta hefur með innri stjórn að gera, óttanum við hvað gerist ef ég er ekki við stjórnvölinn. Fyrir þó nokkrum árum var ég á leið í langt flug og búin að koma mér vel fyrir í sætinu þegar flugfreyja beygði sig niður að mér og bauð mér að koma inn í flugstjórnarklefann og fylgjast með flugtaki og lendingu. Ég átti alls ekki von á þessu og áður en ég vissi af  var ég búin að segja já takk. Ef ég hefði haft svigrúm til að hugsa málið eru allar líkur á að ég hefði afþakkað boðið því hugurinn hefði haft tækifæri til að telja mig ofan af þessu með vel þekktum hræðsluáróðri. Ég hafði lengi glímt við fælni sem hafði þau áhrif m.a. að ég fór ekki í flugvél í mörg ár. Ég var búin að ná nokkuð góðum tökum á fælninni þegar þetta var en þetta var þó nokkuð utan þægindarammans. Þegar ég var sest inn í flugstjórnarklefann, sem mér fannst á stærð við ágætan sturtuklefa, fann ég hvernig hugurinn fór á flug og óttinn læddist að mér. Ég tók á mig rögg og brosti til flugstjóranna, þar sem ég sat kyrfilega bundin niður og hjartað hamaðist í brjósti mér. Mig langaði mest til að rífa mig lausa og koma mér aftur þægilega fyrir í sætinu mínu. Ég var meðvituð um hvað var að gerast innra með mér, óttanum sem læddist að mér og fann að hugurinn vildi ólmur fá að komast að  og stýra ferðinni. Ég lokaði augunum, beindi athyglinni að andardrættinum - andaði inn og út þar til ég fann að að andardrátturinn varð eðlilegur og það hægði á hjartslættinum. Það slaknaði á vöðvunum sem ég hafði spennt þegar kvíðinn og óttinn sóttu að. Ógrynni af hugsunum streymdu um hugann en ég leyfði þeim að koma og fara. Ég fann hvernig ég kom til sjálfs mín, opnaði augun og var tilbúin til að vera þátttakandi í andartakinu. Ég fylgdist af áhuga með flugstjórunum fara yfir öll öryggisastriði fyrir flugtak. Þeir voru svo sannarlega  með vakandi athygli. Ég veit að þeir voru báðir búnir að gera þetta oft en mér fannst eins og þeir væru að þessu í fyrsta sinn, svo mikil var einbeitingin. Ég fæ ekki fullþakkað í dag þetta boð, ég hafði enga stjórn á því sem fram fór en fannst ég fullkomlega frjáls því ég náði að sleppa takinu og vera þátttakandi í lífinu, andartak fyrir andartak. Áður hefði hugurinn stýrt ferðinni og hefði án efa flogið með mig a hættulegri slóðir. Ég er ansi hrædd um að vélin hefði brotlent hefði hún þurft að fylgja flugleið hugans. 
- Gyða Dröfn

Að lifa lífinu lifandi!

9/2/2017

 
Picture
Þegar við sættum okkur við að lífið býður bæði upp á sigra og sorgir eigum við meiri möguleika á að lifa lífinu til fulls - eins og það er! Lífið hefur sinn gang og þó við höfum heilmikið um það að segja þá er annað sem við getum ekki haft nokkra stjórn á. Við getum t.d. gert það sem í okkar valdi til að halda góðri heilsu en það er samt engin trygging fyrir því að við veikjumst ekki. Að taka á móti því sem lífið gefur með einlægum og opnum huga er líklega ein stærsta gjöf sem við getum gefið okkur sjálfum. Hún er enda svo stór að hún er fágæt. Hún er svo stór að hún fæst ekki keypt með peningum. Hún er hins vegar föl fyrir hugrekki til að líta innávið, að taka lífinu opnum örmum, bæði gleði og sorg

    Eldra

    October 2017
    September 2017

    RSS Feed

Picture
Heill heimur  
heillheimur@heillheimur.is
​Vallakór 4, 203 Kópavogur
​Sími 697 4545

  • Heill heimur
  • Ráðgjöf
  • Um mig
  • Námskeið
  • Fyrirlestrar
  • Greinar
  • Hafa samband